
Loksins er fyrsti keppnisdagur runninn upp og allir í góðum gír, búnir að sóla sig og menn orðnir mismunandi rauðir. Ekki er enn ljóst hverjum við mætum í fyrstu umferð, þar sem ekki verður dregið fyrr en eftir setningu mótsins, sem hefst kl. 14:00 að staðartíma (17:00 að íslenskum tíma). Umferðin byrjar síðan kl. 15:00.
Búið er að velja liðið sem teflir í dag og er það þannig skipað:
1. Nökkvi Sverrisson
2. Bjartur Týr Ólafsson
3. Alexander Gautason
4. Kristófer Gautason
Varamaður er Ólafur Freyr Ólafsson.
Í gær var liðstjórafundur og fór hann að mestu fram á rússnesku og búlgörsku. Skrítið hversu mikið er hægt að tala á þessum tungumálum og síðan koma 1-2. setningar á ensku frá þýðandanum sem útskýra allt að 10 mínútna samræður á rússnesku.
Aðstæður hér í Varna eru frábærar. Gistingin er eins og best verður á kosið og jafnvel maturinn sæmilegur. Mætti vera aðeins meiri fjölbreytni. Síðustu tvö kvöld hefur verið það sama í matinn.
Nú er kominn tími til að koma sér á skákstað og hlusta á nokkrar ræður á framandi málum og kannski fáum við einhverja þýðingu inn á milli.
No comments:
Post a Comment