Wednesday, June 27, 2007

Sigur og tap í síðustu umferðunum.

Í næst síðustu umferð kepptum við á móti Búlgörum, sem vermdu neðsta sætið. Í stuttu máli unnu okkar strákar á öllum borðum, Nökkvi, Bjartur Týr, Alexander og Ólafur Freyr unnu sínar skákir örugglega og fjögur stig í pottinn. Þá voru allir meðlimir sveitarinnar komnir á blað og það var viss áfangi.
Í síðustu umferðinni mættum við Þjóðverjum sem voru í öðru sæti. Fljótlega töpuðust skákirnar hver af annari og tapaðist viðureignin 4-0 og lentum við í 7 sæti á mótinu.
Það verður ekki annað sagt en þessi úrslit sé hvorki vonbrigði né annað, því sveitin er skipuð strákum allt niður í 10 ára, en við kepptum í flokki undir 14 ára. Sá yngsti hefði getað keppt tveim flokkum neðar, svo dæmi sé tekið. Fyrst og fremst var þátttakan hugsuð sem reynsla og hana fengu drengina.
Niðurstaðan hjá einstökum mönnum var þessi :
Nökkvi ........... 3 vinningar,
Bjartur Týr ... 1,5 vinningur
Alexander ..... 4,5 vinningar
Kristófer ........ 1 vinningur og
Ólafur Freyr .. 1 vinningur.
Við viljum þakka þeim sem fylgst hafa með okkur á mótinu.
Bestu kveðjur frá Búlgaríu.

Tuesday, June 26, 2007

Jafntefli gegn Kýpur Tyrkjum.


Umferðin í gær var æsispennandi. Okkar strákar komu ákveðnir til leiks því barist er um hvern punkt, því nokkur lið virðast nokkuð jöfn. Pólverjarnir eru næstum búnir að tryggja sér sigurinn því þeir unnu Rússana 4-0 og hafa unnið alla leiki með miklum mun.
Fljótlega sigraði Kristófer andstæðing sinn á fjórða borði, en staðan í hinum skákunum sveiflaðist nokkrum sinnum og spennan var mikil.
Eftir rúmlega tveggja tíma setu töpuðum við á öðru borði. Staðan hjá Nökkva og Alexander var í járnum og þeir reyndu sitt besta til að knýja fram sigur, en loks tóku þeir jafntefli, enda ekki unnt að ná meiru fram. Þriðja jafntefli okkar var því niðurstaðan. Í dag mætum við Búlgaríu og þá er bara að spýta í lófana.

Sunday, June 24, 2007

1-3 tap gegn Pólskri sveit.

Í dag mættum við annarri Pólskri sveit og er skemmst frá því að segja að við náðum einum vinningi gegn þeim þegar Alexander sigraði andstæðing sinn á þriðja borði og landaði þar með sínum þriðja vinningi á mótinu.
Á morgun mætum við Kýpur Tyrkjum sem eru neðarlega á mótinu.
Og hinn daginn Búlgarskri sveit sem er í neðsta sæti.
Auðvitað vonumst við eftir hagstæðum úrslitum á móti þeim, en í skák getur allt gerst ....

Saturday, June 23, 2007

Pólverjar í dag


Í dag mætum við annarri pólskri sveit. Sú sveit er ekki eins sterk og sveitin sem við töpuðum fyrir í 1. umferð. Vonandi nást hagstæð úrslit og að við getum farið í þrjár síðustu umferðirna fullir sjálfstraust og kannski þokað okkur aðeins upp töfluna.

Svo virðist að hin ofursterka pólska sveit sem við töpuðum fyrir í 1. umferð sé sú langsterkasta í okkar flokki og hafa þeir ekki tapað skák. Þetta er sveit sem er með mann á 1. borði upp á 2118 elostig og þar fyrir neðan eru strákar með 18-1900 stig, sveit sem myndi sóma sér vel í 2-3. deild í Íslandsmóti skákfélaga.
Strákarnir biðja að heilsa öllum heima og endilega commentið eitthvað til þeirra á síðunni.

Jafntefli gegn Hvít Rússum.


Í dag mættum við Hvít Rússum í þriðju umferð mótsins. Þeir eru um miðbik mótsins og því var mikilvægt að ná hagstæðum úrslitum á móti þeim. Í þetta skipti leið ekki á löngu áður en Nökkvi á fyrsta borði var komin með peð yfir í endatafli og fljótlega náði Alexander manni á þriðja borði, en á hinum borðunum var jafnræði með keppendum.

Stuttu seinna kláraði Nökkvi sína skák og Alexander halaði inn vinning til viðbótar. Þó við hefðum vonast til að ná fleiri punktum þegar þarna var komið leið ekki á löngu áður en þær töpuðust báðar og jafntefli 2-2 var staðreynd.

Eftir umferðina var gengið niður í miðbæ Varna og kjúklingarnir á Kentucky smakkaðir og voru þeir ansi ljúffengir.

Mikill hiti var í dag, yfir 30 gráður en síðdegis kom skúr í Varna en síðar fréttum við að á Hótelinu hafi komið haglél, snjókúlur á stærð við sæmilega körfubolta að sögn áreiðanlegra vitna.

Í Varna rákumst við á flaggskip bifreiðaflota Varna lögreglunnar og fylgir hér mynd af honum í hvíldarstöðu.

Friday, June 22, 2007

Mikill hiti í Varna.


Þá er komið að segja smávegis frá hvað við höfum verið að gera milli þess sem er verið að tefla.

Við erum á svæði sem er rétt fyrir utan Varna og mjög nálægt ströndinni svo auðvelt er að taka sundsprett í sjónum ef hugur stendur til þess. Hótelið hefur komið á óvart og er ágætt.

Í gærkveldi gengum við yfir á Golden Sands, sem er í svoan hálftíma göngufæri héðan. Þar eru miklu fleiri ferðamenn en okkar megin sem er svona meira innfæddra staður ef svo má segja, enda er verðlagið töluvert hærra á Gullna sandinum. Þar fóru strákarnir í Mini Golf og skemmtu sér konunglega.

Ætlunin var að fara á markaðinn í Varna í dag, en eftir veðurfregnir um 35 gráður þá var snarlega hætt við það og nú munu strákarnir slappa af fyrir umferðina á móti Hvít Rússum í dag.

Hitinn hér við hótelið er þegar komin yfir 30 stigin og engin í sólbaði við sundlaugina sem er breyting frá síðustu dögum. Ætli fólk kjósi ekki bara að sitja í skugganum í dag.

Jafntefli við Rússa.


Í dag var önnur umferð og mættu strákarnir sveit frá Rússlandi, þ.e.a.s. sveit frá St. Petersborg. Fljótlega tapaðist á fjórða borði en aðrar skákir voru lengi vel jafnteflislegar. Eftir að Bjartur náði jafntefli á öðru borði var ljóst að fyrsti punktur okkar var í höfn. Alexander og Nökkvi lentu í mikilli rimmu langt fram eftir degi og lengi vel var Alexander með peði undir en Nökkvi með peði yfir. Skjótt skipast veður í loft því Alexander náði nú manni og var með vænlega stöðu. Nökkvi var komin í flókið endatafl og allt gat gerst. Eftir nokkra hríð samdi Nökkvi jafntefli enda staðan harðlæst. Skömmu síðar innbyrti Alexander fyrsta vinninginn og jafntefli við Rússa 2-2 staðreynd.

Veðrið er alltaf jafngott, sól og blíða, foreldrarnir sumir hverjir byrjaðir að brenna, en ekkert alvarlegt ennþá.

Á morgun mætum við Hvít Rússum í þriðju umferð.